Í hönnun skálans er lögð mikil áhersla á sterka tengingu við náttúruna. Stór gluggaflöturinn dregur úr beinum aðskilnaði á milli innra rýmis og stórbrotinnar náttúrunnar og gerir bygginguna hluta af landslaginu. Stórum þakglugga er komið fyrir til þess að hægt sé að njóta norðurljósanna.
Byggingin, sem er forsniðin timburbygging er klædd að utanverðu með íslenskum aski. Yfirborð timburklæðningar er brent sem gefur henni dökkleitt yfirbragð ásamt því að loka viðaræðum og gera hana viðhaldslitla.
Efnisval innandyra samanstendur af gólfborðum úr gegnheilum aski á meðan veggir, loft og innréttingar eru úr birkikrossvið sem ljáir innra byrðinu hlýlegan blæ. Vönduð og lágstemd lýsing ásamt hlýlegu efnisvalinu innanhús er ætlað að skapa andstæðu við dökkt og gróft ytra yfirborðið.
Skálunum, sem verða nokkrir saman er svo dreift víða um aflíðandi landslagið svo að hver og einn fái sérstakt sjónarhorn og að gestir upplifi fullkomið næði.